Innlent

Hætti að losa hænsnaskít í námuna við Ytra-Holt

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Í kjúklingabúi.
Í kjúklingabúi. vísir/friðrik þór
„Við erum svona aðeins að hnippa í þá,“ segir Haukur Gunnarsson, formaður umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar, sem gerir athugasemdir við hvernig kjúklingabúið Matfugl kemur hænsna­skít fyrir við gamla malarnámu við Ytra-Holt.

„Þar sem náman við Ytra-Holt er ekki viðurkenndur urðunarstaður getur umhverfisráð ekki sætt sig við að náman sé notuð sem slík. Matfugli ber að finna varanlega lausn á losun hænsnaskíts frá sínum rekstri,“ bókar umhverfisráðið sem jafnframt leggur áherslu á að við endurnýjun á starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti verði gerðar skýrar kröfur til Matfugls um meðhöndlun á úrgangi frá starfsemi fyrirtækisins.

Börkur Þór Ottósson, sviðstjóri umhverfissviðs Dalvíkurbyggðar, segir Matfugl hafa haft munnlegt leyfi til að nýta námuna en hafi ekki uppfyllt skilyrði um að dekka hænsnaskítinn á meðan hann brýtur sig svo hægt sé að dreifa honum sem áburði á tún. Hestamenn í nágrenninu hafi kvartað undan foki úr skítnum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×