Handbolti

Hætti, byrjaði aftur og nú rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Króatía komst í undanúrslit á tveimur af þremur stórmótum þar sem Zeljko Babic var við stjórnvölinn.
Króatía komst í undanúrslit á tveimur af þremur stórmótum þar sem Zeljko Babic var við stjórnvölinn. vísir/getty
Þótt Króatar hafi komist í undanúrslit á HM í handbolta sem lauk um helgina var það ekki nóg til að bjarga starfi þjálfarans Zeljko Babic.

Króatíska handknattleikssambandið lét ekki þar við sitja og rak einnig aðstoðarþjálfarann Petar Metlicic, markvarðaþjálfarann Venio Losert og framkvæmdastjórann Ivano Balic. Þeir eru allir miklar goðsagnir í króatískum handbolta.

Babic tók við króatíska landsliðinu af Slavko Goluza árið 2015. Babic gerði talsverðar breytingar á króatíska liðinu og þær báru árangur því Króatar unnu til bronsverðlauna á EM 2016.

Það gekk ekki jafn vel á Ólympíuleikunum í Ríó þar sem Króatía lenti í 5. sæti. Eftir það hætti Babic en tók svo aftur við því leitin að eftirmanni hans bar engan árangur.

Króatar unnu fjóra af fimm leikjum sínum í riðlakeppninni á HM í Frakklandi og slógu svo Egyptaland og Spán út í 16- og 8-liða úrslitunum.

Í undanúrslitunum tapaði Króatía fyrir Noregi eftir framlengdan leik og fór svo afar illa að ráði sínu í bronsleiknum gegn Slóveníu. Króatar voru mest átta mörkum yfir í seinni hálfleik en töpuðu samt, 31-30. Það reyndist banabiti Babic sem þarf nú að fara að leita sér að nýju starfi.


Tengdar fréttir

Norðmenn í úrslit í fyrsta sinn

Það verða Norðmenn sem mæta Frökkum í úrslitaleiknum á HM í handbolta í París á sunnudaginn. Noregur vann þriggja marka sigur, 25-28, á Króatíu í seinni undanúrslitaleiknum í kvöld.

Slóvenar fengu bronsið eftir ótrúlega endurkomu

Slóvenar unnu upp átta marka forskot Króata á lokamínútunum í leiknum upp á bronsverðlaunin á HM í handbolta en þetta eru fyrstu verðlaunin í sögu slóvenska handboltalandsliðsins á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×