Viðskipti innlent

Hætta á „Disney-væðingu“ miðbæjarins verði ekkert gert

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Eflaust er þetta ekki það sem átt við með Disney-væðingu en þetta er þó áhugaverður möguleiki.
Eflaust er þetta ekki það sem átt við með Disney-væðingu en þetta er þó áhugaverður möguleiki. vísir/gva/getty
Hætta er á því að miðbær Reykjavíkur verði of „Disney-væddur“ verði ekkert gert í því að dreifa ferðamönnum um landið. Þetta er haft eftir Gunnari Þór Jóhannessyni, dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, í umfjöllun The Guardian um ferðamenn á Íslandi.

Helsta umfjöllunarefni greinarinnar er frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þar er meðal annars lagt til að fólki verði heimilt að leigja út fasteignir sínar í allt að níutíu daga á ári sé af henni greitt skráningargjald, fasteignin skráð hjá sýslumanni og að hún uppfylli brunakröfur. Frumvarpið hefur verið til meðferðar í þinginu að undanförnu og gæti orðið að lögum, með gerðum breytingum, á næstu dögum.

Sjá einnig:Svona lítur Airbnb-borgin Reykjavík út

Búist er við því að 1,6 milljón ferðamenn heimsæki Ísland á árinu en það er tæplega þrjátíu prósent aukning frá árinu áður. Þessi aukni ferðamannastraumur hefur þýtt að útleiga í gegnum forrit á borð við Airbnb tvöfaldast á skömmum tíma með tilheyrandi þrengingum á leigumarkaði og hærra leiguverði í langtímaleigu.

„Við erum aðeins að byggja um þrjátíu prósent af því sem þörf er á á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elvar Orri Hreinsson hjá Íslandsbanka. Að hans mati þyrfti að byggja upp um þúsund ný hótelrými til að anna straumnum en um þrjúhundruð slík eru í kortunum.

Sjá einnig:Gistirýmum á Airbnb fjölgaði um 126 prósent

„Allir sjá að eitthvað þarf að gera í málunum. Við viljum ekki að miðbær Reykjavíkur verði eingöngu ferðamenn án nokkurra íbúa,“ segir Áshildur Bragadóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Hún er vongóð um að frumvarpið verði að lögum.

Áðurnefndur Gunnar Þór segir hins vegar að nauðsynlegt sé að flýta sér ekki of í þessum efnum. „Við verðum að safna saman gögnum og upplýsingum um stöðuna svo unnt sé að taka bestu ákvarðanirnar um framhaldið. Það er auðvelt að draga upp svarta mynd af ástandinu, segja að Ísland sé að drukkna í ferðamönnum, því þetta gerðist allt svo hratt. Þetta er stór ákvörðun og til að gæta sanngirni þá er ríkisstjórn landsins að reyna að ná stjórn á aðstæðunum,“ segir Gunnar Þór. „Ég tel að þetta séu aðeins vaxtaverkir.“


Tengdar fréttir

Stór verslunarmiðstöð rís í Vík

Mikil uppbygging er fram undan í Vík í Mýrdal. Hafist hefur verið handa við að reisa stóra verslunarmiðstöð sem hýsa á matvöruverslun, veitingastað og verslanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×