Viðskipti innlent

Hæstiréttur þyngir dóm yfir Landsbankamönnum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fyrrum bankastjóri Landsbankans dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi.
Fyrrum bankastjóri Landsbankans dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi. vísir/gva
Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir Sigurjóni Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, sem var í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2014 dæmdur í tólf mánaða fangelsi. Var hann dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi. Dómur yfir tveimur undirmönnum hans var jafnframt þyngdur auk þess sem Sindri Sveinsson, sem var sýknaður í héraði, var dæmdur í 9 mánaða fangelsi.

Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, og Júlíus Steinar Heiðarsson, fyrrverandi starfsmaður deildarinnar, eru dæmdir í tveggja ára fangelsi annars vegar og eins árs fangelsi hins vegar. Þeir fengu báðir níu mánaða dóm í héraði en þar af voru sex mánuðir á skilorði til tveggja ára.

Málið sem um ræðir er eitt það stærsta sem sérstakur saksóknari hefur haft til rannsóknar í kjölfar efnahagshrunsins. Fjórmenningunum var gefið að sök að hafa blekkt almenning með því að handstýra verði hlutabréfa í bankanum í aðdraganda hrunsins.

Í ákærunni kom fram að með háttsemi þeirra hafi þeir raskað þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbankanum með ólögmætum hætti.

Sérstakur saksóknari ákærði árið 2013 sex Landsbankamenn fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Málinu var skipt í tvo hluta vegna umfangs þess en dómur var kveðinn upp í fyrri hluta þess, Ímon-málinu svokallaða, í október í fyrra. Þá var Sigurjón dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, í átján mánaða fangelsi.


Tengdar fréttir

Sigurjón dæmdur í tólf mánaða fangelsi

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir,

Sigurjón áfrýjar dómnum

Sigurjón Árnason ætlar að áfrýja tólf mánaða fangelsisdómnum frá því í morgun.

Imon-málið komið á dagskrá Hæstaréttar

Í málinu voru þau Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir sýknuð af ákæru um markaðsmisnotkun. Steinþór Gunnarsson hlaut níu mánaða dóm sem var að hluta skilorðsbundinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×