Innlent

Hæstiréttur þyngdi nauðgunardóm

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir Birni Valdimarssyni sem sakfelldur var í héraðsdómi fyrir nauðgun. Er honum gert að sæta fangelsi í tvo og hálft ár en héraðsdómur hafði áður dæmt hann í tveggja ára fangelsi.

Var hann sakfelldur fyrir að hafa notfært sér að konan, sem dvaldi í foreldrahúsum, gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og mikillar áfengisdrykkju fyrr um kvöldið. Björn og konan þekktust aðeins lítillega en þau höfðu verið á balli á Vesturlandi fyrr um kvöldið, þann 20. desember 2014. Þaðan hafi konan farið heim til sín en Björn og vinur hans, sem var í sambandi við konuna, kum síðar að heimili hennar.

Frásögn konunnar er á þann veg að hún hafi vaknað við það að verið var að eiga við hana samræði og kyssa hana. Hún hafi ekki áttað sig á aðstæðum, aðeins kysst á móti en svo áttað sig á því hvað um var að ræða. Hún hefði orðið mjög hrædd, frosið og hvorki veitt mótspyrnu né kallað á hjálp. Hún átti erfitt með að muna hvernig þessu lauk.

Björn  sagði konuna hins vegar hafa verið vakandi þegar hann kom inn í herbergið. Þau hafi síðan farið að kyssast, hrósað hvoru öðru og stundað kynmök með samþykki hennar. Svo hefði hún staðið upp úr rúminu, klætt sig og farið yfir í herbergi systur sinnar. Þar var systir sín með kærasta sínum og brugðust þau við með því að segja manninum að koma sér í burtu. Á meðan var konan hágrátandi inn í herbergi systur sinnar. Í hamagangnum vöknuðu foreldrar systranna og hélt faðirinn hinum dæmda þar til lögregluna bar að garði skömmu síðar.

Héraðsdómur hafði áður talið að framburður konunnar væri í alla staði trúverðugur, frá upphafi skýr og stöðugur í öllum höfuðatriðum. Á hinn bóginn var framburður mannsins á skjön við framburð vinar hans til dæmis þess efnis að konan hefði verið vakandi þegar þeir komu inn í herbergi hennar.

Taldi Hæstiréttur sannað að Björn hafi nýtt ér ölvun og svefndrunga brotaþola til að hafa við hana samræði. Þyngdi Hæstiréttur dóm héraðsdóms um hálft ár auk þess sem Björn þarf að greiða konunni 1,5 milljónir með vöxtum en héraðsdómir hafði dæmt konunni eina milljón í miskabætur. Þarf Björn einnig að greiða allan sakarkostnað, samtals 1,2 milljónir.

Dómur Hæstaréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×