Innlent

Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Mennirnir tveir sæta nú fjögurra vikna fangelsisvist.
Mennirnir tveir sæta nú fjögurra vikna fangelsisvist. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hefur nú staðfest fjögurra vikna varðhaldið sem héraðsdómur úrskurðaði yfir mönnunum tveimur sem grunaðir eru fyrir fólskulega líkamsárás á Grundafirði fyrir viku og hálfri.

Í fréttatilkynningu lögreglu segir að úrskurðurinn nú sén á grundvelli almannahagsmuna.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Akranesi rannsakar málið.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni var heldur grátt leikinn, en hann hlaut alvarlega höfuðáverka og var fluttur á Landspítalann þar sem honum hefur verið haldið sofandi í öndunarvél.

Meðal dómsgagna er myndbandsupptaka af líkamsárásinni sem átti sér stað á bryggjunni í Grundarfirði aðfaranótt 17. júlí.

Þar sést að mennirnir tveir, sem voru áhafnarmeðlimir skips sem var við löndun í Grundarfirði, hafi veist að öðrum manni. Sá var fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar og hefur verið haldið sofandi síðan.

Vitni að árásinni segir þann slasaða hafa verið að kítast við tvo menn á hafnarsvæðinu. Þeir hafi byrjað að slást og féll maðurinn með höfuðið í malbikið eftir hnefahögg. Vitnið sagðist ekki hafa séð hvor sakborninganna hafi slegið manninn fyrst, en líklega hafi hann rotast við fallið í malbikið.

Hann segir annan sakborninganna hafa stigið klofvega yfir hann og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið einu sinni eða tvisvar. Við það hafi höfuð hans skollið í malbikið.

Vitnið ók til þeirra á lyftara og segir sakborningana hafa „eitthvað farið að rífa sig“. Þó hafi annar áhafnarmeðlimur komið frá bátnum og hinir tveir farið aftur um borð.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði einn sakborninga að hann héldi að gafflar lyftarans hafi farið í höfuð mannsins. Hann vildi ekkert segja um þátt hins sakbornings í atburðarásinni, því hann hefði verið upptekinn við að verja sig.

Hann sagði myndbandsupptökuna ekki sýna fram á neitt annað en það sem hann hafi haldið fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×