Innlent

Hæstiréttur staðfesti dóm vegna líkamsárásar í fangelsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað á útisvæði Hegningarhússins við Skólavörðustíg.
Árásin átti sér stað á útisvæði Hegningarhússins við Skólavörðustíg.
Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjaness þess efnis maður sem réðst á samfanga í Hegningarhúsinu skuli sæta fangelsi í eitt ár.

Maðurinn réðst á samfanga sinn á útisvæði Hegningarhússins í mars í fyrra. Sló hann manninn ítrekað í andlitið og höfuðið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, tognaði og hlaut ofreynslu á hálshrygg. Þá hlaut hann einnig mar og sár í andliti auk annarra áverka.

Fyrir dómi játaði maðurinn sök og krafðist vægustu refsingar en var dæmdur í ársfangelsi og til að greiða manninum sem hann réðst á 400.000 krónur í miskabætur. Hann áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og krafðist mildunar á refsingu og lægri miskabóta en Hæstiréttur varð við hvorugu.

Í dómi Hæstaréttar, sem og í dómi héraðsdóms, kemur fram að árásin hafi verið alveg tilefnislaus. Þá er einnig litið til þess í dómnum að maðurinn á sér langan sakaferil að baki, allt frá árinu 1993.

Meðal annars er tekið fram í dómi Hæstaréttar að þar sem maðurinn hefur fjórum sinnum áður verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot hafi dómnum þótt tilefni til að þyngja refsingu hans. Ákveðið var þó að staðfesta dóm héraðsdóms um ársfangelsi að teknu tilliti til kröfugerðar ákæruvaldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×