Innlent

Hæstiréttur hafnaði flýtimeðferð dómsmáls um búvörusamning

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/stefán
Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur að dómsmál Félags atvinnurekenda gegn íslenska ríkinu og Bændasamtökunum fái ekki flýtimeðferð fyrir dómi.

Félag atvinnurekenda hyggst höfða mál á hendur áðurnefndum aðilum til viðurkenningar á því að samningur þeirra um starfsskilyrði nautgriparæktar, frá febrúar í ár, sé ólögmætur. Til vara er þess krafist að greinar samningsins um verðupplagsfærslu, verðlagningu og tollvernd verði dæmdar ólögmætar.

Nýr búvörusamningur var undirritaður í febrúar en samningurinn hefur ekki enn verið samþykktur af Alþingi. Í bréfi lögmanns Félags atvinnurekenda virðist hafa verið byggt á því að búvörusamningurinn yrði samþykktur fyrir sumarleyfi þingsins en svo var ekki.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að enn sé óvíst hver afdrif frumvarps um breytingar á búvörulögum verða og samhliða því afdrif samningsins sem undirritaður var af ríkinu „fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis“.

„Sóknaraðili er ekki aðili að þeim samningi sem fyrirhuguð málsókn hans lýtur að. Að teknu tilliti til þess og annarra málsatvika hefur sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um þær kröfur sem hann hyggst tefla fram í fyrirhuguðu dómsmáli.“ Meðal annars af þeim sökum taldi dómurinn skilyrði flýtimeðferðar, samkvæmt lögum um meðferð einkamála, ekki uppfyllt.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Nauðsynlegt að gera breytingar á búvörusamningum

Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis segir nauðsynlegt að gera verulega breytingar á búvörusamningum til að hægt verði að skapa sátt um málið. Hún vill fresta gildistöku á sauðfjárhlutanum, endurskoða tollamál og styrkja endurskoðunarákvæði samninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×