Innlent

Hælisumsóknum fjölgað um 400 prósent á fimm árum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ghasem Mohamadi, afgönskum hælisleitanda, var veitt pólitískt hæli á Ísland á dögunum.
Ghasem Mohamadi, afgönskum hælisleitanda, var veitt pólitískt hæli á Ísland á dögunum. Vísir/Pjetur
Í ársskýrslum Útlendingastofnunar fyrir árin 2011, 2012 og 2013 kemur meðal annars fram að hælisumsóknum hér á landi hefur fjölgað mjög undanfarin ár. Hækkunin hefur numið um 50 prósentum á milli ára frá árinu 2009. Það ár voru umsóknir 35 en voru í fyrra 172. Fjöldi þeirra hefur því tæplega fimmfaldast á fimm árum.

Útlendingastofnun hefur gefið út ársskýrslur fyrir árin 2011 til 2013 en skýrslugerð hefur setið á hakanum undanfarin ár vegna álags. Í frétt á vefsíðu stofnunarinnar segir að í skýrslunum megi glögglega sjá þann árangur sem náðst hafi í sérstöku átaki innanríkisráðuneytis og stofnunarinnar sem hófst í lok árs 2012.

„Tekist hefur að halda hinum svokallaða málahala í skefjum og saxa nokkuð á hann. Þannig var 80 hælismálum ólokið hjá Útlendingastofnun í lok árs 2012 en í lok árs 2013 voru þau aðeins 56 þrátt fyrir algert metár í fjölda hælisumsókna.“

Tíðni veitinga í hælismálum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar hefur verið breytileg undanfarin ár. Árið 2013 var hún aðeins 16 prósent.

„Þetta lága veitingarhlutfall skýrist að miklu leyti af stórum hópum hælisleitenda frá öruggum Evrópuríkjum, einkum Albaníu og Króatíu. Til samanburðar var veitt hæli í um 67% tilfella árið 2011, í 41% tilfella árið 2012 og það sem af er árinu 2014 er áætlað að veitingarhlutfallið sé um eða yfir 50%.“

Umsóknum útlendinga um dvalarleyfi hefur fækkað eftir efnahagshrunið haustið 2008.

„Árið 2010 bárust 3625 umsóknir en árið 2013 var fjöldi þeirra 3076. Á þessu tímabili var fallist á veitingu dvalarleyfis í 87 til 94% tilfella. Meðal þeirra sem fengu dvalarleyfi árin 2012 og 2013 voru Bandaríkjamenn fjölmennastir en fólk frá Filippseyjum og Taílandi fylgdu í kjölfarið. Árið 2013 byggðust flestar synjanir um dvalarleyfi á því að umsóknir og fylgigögn fullnægðu ekki skilyrðum laga.“

Ársskýrslurnar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×