Skoðun

Hækkun skatta á nauðsynjavörur

Gylfi Magnússon skrifar
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, tekur upp hanskann fyrir höfunda fjárlagafrumvarpsins í Fréttablaðinu þann 23. október. Hann reynir þar m.a. að fullvissa þjóðina um að lágtekjufólk noti sama hlutfall af tekjum sínum í nauðsynjar eins og matvæli og hátekjufólk. Því fer auðvitað víðsfjarri.

Svo vel vill til að til eru tvær ágætar kannanir á þessu, önnur unnin af Hagstofunni og hin af Meniga. Þær sýna þetta báðar mjög skýrt, þótt þeim beri ekki saman um hve mikill munurinn er á milli tekjuhópa. Könnun Meniga byggir á mun stærra úrtaki en könnun Hagstofunnar og raunverulegum færslum á greiðslukort. Hún er að því leyti betri. Vegna þess hve úrtak Hagstofunnar er lítið verða sumar tölur skrýtnar, sérstaklega þær sem snúa að kaupum á varningi sem keyptur er sjaldan, eins og bílar og líklega raftæki. Könnun Hagstofunnar hefur hins vegar nokkra aðra kosti umfram könnun Meniga. Þannig eru kaup á öðrum vörum en matvælum í matvælaverslunum, eins og t.d. þvottaefni, með í tölum Meniga um matvæli. Það ætti þó varla að breyta miklu í samanburði á tekjuhópum.

Hvað sem því líður þá er enginn vafi á því að matvæli vega miklu þyngra í heimilisbókhaldi fólks með lágar tekjur en háar. Væri svo ekki á Íslandi þá væri það líklega einsdæmi í mannkynssögunni og verðugt rannsóknarefni. Meðfylgjandi mynd talar fyrir sig.

Blekkjandi

Frosti reynir einnig að verja hugmyndina um að meðalmáltíð kosti rúmar 200 krónur og segir að þar hafi verið sleppt tilbúnum mat í útreikningum höfunda fjárlagafrumvarpsins. Nú getur vel verið að reiknimeistarar frumvarpsins hafi gleymt tilbúnum mat, í mötuneytum, veitingahúsum og fleiri stöðum. Ég veit ekki hvort það er tilfellið en það eru þá hrein mistök. Slíkur matur er nú með 7% virðisaukaskatti. Hann mun því hækka með sama hætti og matvæli í verslunum gangi hækkun á matarskatti eftir. Það er blekkjandi að sleppa áhrifum þess í útreikningi á hækkun matarreiknings heimilanna.

Að lokum þetta. Það má færa ágæt rök fyrir því að e.t.v. séu virðisaukaskattskerfið og tolla- og vörugjaldakerfið ekki bestu tækin til að jafna lífskjör landsmanna. Það sé betra að gera það í gegnum tekjuskattskerfið og bótakerfið. Það er hægt að gera breytingar á fyrrnefndu kerfunum sem rýra ekki lífskjör lágtekjufólks ef á sama tíma eru gerðar breytingar til jöfnunar í síðarnefndu kerfunum. Fyrirhuguð hækkun skatta á matvæli og aðrar breytingar sem gera á samtímis standast ekki þetta próf. Því fer fjarri, breytingarnar koma mjög illa út fyrir lágtekjufólk.

.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×