Innlent

Hækkun matarskattsins viðkvæmt mál innan ASÍ

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Rætt um að hækka matarskatt Matvæli bera sjö prósenta virðisaukaskatt, hugmyndir eru uppi um að hækka virðisaukaskattinn á matvæli upp í 14 til 15 prósent.
Rætt um að hækka matarskatt Matvæli bera sjö prósenta virðisaukaskatt, hugmyndir eru uppi um að hækka virðisaukaskattinn á matvæli upp í 14 til 15 prósent.
Líklegt má telja að fjármálaráðherra leggi fram breytingar á virðisaukaskattskerfinu í tengslum við fjárlagafrumvarpið þegar þing kemur saman í september.

„Það sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir eru hóflegar álögur og einfalt skattkerfi. Ég tel að við eigum að stíga skref í þá átt ekki seinna en í haust. Þá eigum við að einfalda kerfið og lækka skatta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis.

Guðlaugur Þ. Þórðarsonfréttablaðið/vilhelm
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekki búið að negla niður neinar tölur varðandi lækkun og hækkun á virðisaukaskattþrepunum. Efra þrep skattsins er nú 25,5 prósent, það hækkaði um prósentustig í tíð síðustu ríkisstjórnar. Rætt er um að lækka skattinn aftur niður í 24,5 prósent jafnvel meira. Neðra þrepið er sjö prósent og rætt er um að hækka það í áföngum, upp í 14 til 15 prósent. Stefnt er að því að flestar vörutegundir og þjónusta fari í þetta þrep. Til að kaupmáttur minnki ekki við þessar breytingar á að lækka vörugjöld á móti.

Guðlaugur Þór segir að virðisaukaskattskerfið sé allt of flókið. Skýrasta dæmið um það sé að finna í ferðaþjónustunni.

„Slíkt kerfi ýtir undir undanskot og kerfið er dýrt vegna þess að það krefst mikils eftirlits. Það þarf minna eftirlit með einföldu skattkerfi sem allir skilja.“

Karl Garðarsson
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, situr í fjárlaganefnd. Hann tekur undir með Guðlaugi Þór að það þurfi að einfalda kerfið, það sé of flókið og undanþágur of margar. Hins vegar kveðst hann á móti því að hækka virðisaukaskatt á matvæli en þau bera sjö prósenta virðisaukaskatt. „Ég er á móti því að hækka matarskattinn. Það kemur illa við þá sem hafa lægstu launin,“ segir Karl.

„Á sama tíma og skattahækkanir á matvæli eru boðaðar bólar ekkert á því að ferðaþjónustan og aðilar tengdir henni borgi sitt. Við samþykktum á síðasta ári að hætta við að færa hótel- og gistiþjónustu í efra skattþrep, en nú er tímabært að endurskoða þá ákvörðun,“ segir Karl og bætir við að það sé eðlilegt að hækka álögur á hótel og gistiþjónustu í áföngum. Hann bendir á að fjölmargir aðilar tengdir ferðaþjónustu borgi ekki virðisaukaskatt.

Gylfi ARnbjörnsson


Alþýðusamband Íslands hefur miklar efasemdir um hækkun matarskattsins.

„Við höfum ekki séð neina útfærslu á þessu. En það eru miklar efasemdir innan okkar raða um hækkun matarskattarins. Ég á ekki von á öðru en því verði mætt af mikilli tortryggni,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Hann segir málið mjög viðkvæmt í augum félagsmanna ASÍ því allir verði að kaup mat, það komist enginn undan því.

Guðlaugur Þór segir að menn megi ekki að festa sig í að ræða einn anga málsins það er um matarskattinn.

„Við eigum að fara yfir skattamálin í heild og ræða þau í samhengi við breytingar á vörugjöldum og tollum,“ segir Guðlaugur Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×