Fótbolti

Hækkuðu laun Zlatans um hundrað milljónir á miðju tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Paris Saint-Germain og Zlatan Ibrahimovic eru með yfirburðarforystu í franska fótboltanum og eigendur félagsins eru himinlifandi með stöðu mála og tvöfölduðu laun sænska framherjans.

Paris Saint-Germain hefur 21 stigs forskot á toppi frönsku deildarinnar eftir 22 umferðir sem þýðir að liðið hefur nánast aukið forskot sitt um eitt stig í hverri umferð.

Zlatan Ibrahimovic hefur skorað 17 mörk í aðeins 17 leikjum og er með fimm mörkum fleira en næstmarkahæsti maður deildarinnar. Hann hefur einnig gefið sex stoðsendingar.  

Le Parisien segir frá því að Zlatan Ibrahimovic hafi fengið afar veglega launahækkun á miðju tímabili og sé nú aftur orðinn launahæsti leikmaður frönsku deildarinnar.

Eigendur Paris Saint-Germain næstum því tvöfölduðu laun Svíans og launahækkunin gildir frá byrjun tímabilsins.

Laun Zlatan Ibrahimovic hækkuðu um 700 þúsund evrur á mánuði og eru nú ein og hálf milljón evra á mánuði sem gera 213 milljónir íslenskra króna. Hækkunin nemur því rétt tæpum hundrað milljónum íslenskra króna.

Argentínumaðurinn Angel Di Maria varð launahæsti leikmaður frönsku deildarinnar þegar hann kom til Paris Saint-Germain í sumar en það þótt sænska framherjanum örugglega ekki ásættanlegt.  Nú er búið að lagfæra það.

Zlatan Ibrahimovic samdi líka um veglega bónusa ef hann verður markakóngur og/eða Paris Saint-Germain liðið vinnur titla. Stærsti bónusinn er í boði fyrir Meistaradeildina en hana hefur hinn sigursæli Zlatan Ibrahimovic aldrei unnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×