Erlent

Hægrisinnaðir karlmenn í framkvæmdastjórn Junckers

Atli Ísleifsson skrifar
Framkvæmdastjórn Lúxemborgarans Jean-Claude Junckers telur við stjórnartaumunum í Brussel þann 1. nóvember.
Framkvæmdastjórn Lúxemborgarans Jean-Claude Junckers telur við stjórnartaumunum í Brussel þann 1. nóvember. Vísir/AFP
Ein vika er nú þar til aðildarríki ESB verða að vera búin að tilnefna menn í stöður framkvæmdastjóra til að sitja í framkvæmdastjórn Jean-Claude Juncker. Útlit er fyrir að hægri slagsíða verði á framkvæmdastjórninni og að konur verði þar í miklum minnihluta.

24 aðildarríki hafa nú tilnefnt framkvæmdastjóra en fjögur aðildarríki – Belgía, Danmörk, Holland og Kýpur – höfðu ekki tilnefnt fulltrúa þegar upphaflegur frestur rann út 1. ágúst. Meirihluti hinna tilnefndu eru karlmenn úr hægriflokkum.

Enn sem komið er hafa nítján karlmenn verið tilnefndir og fjórar konur. Búlgaría, Tékkland, Ítalía og Svíþjóð eru einu aðildarríkin sem hafa tilnefnt konur enn sem komið er.

Fastlega er búist við að Danir tilnefni konu í stöðu framkvæmdastjóra og eru menntamálaráðherrann Christine Antorini eða þá Connie Hedegaard, núverandi framkvæmdastjóri loftslagsmála, taldar líklegastar.

Slóvenía hefur afhent Juncker, tilvonandi forseta framkvæmdastjórnarinnar, lista með nöfnum þeirra sem koma til greina af hálfu Slóveníu, þar af tvær konur. Verður Juncker boðið að velja þann sem honum hugnast best.

Í frétt Euractiv segir að fjórtán þeirra sem tilnefndir hafa verið eru úr mið-hægri flokkum og því útlit fyrir að stjórnmálaflokkar sem tengjast EEP-flokknum á Evrópuþinginu verði í meirihluta í framkvæmdastjórninni. Tilvonandi framkvæmdastjórn virðist að óbreyttu ekki ætla að verða eins stjórnmálalega fjölbreytt og sú síðasta þar sem EEP-menn skipuðu þrettán stöður, sósíalistar sjö og frjálslyndir átta. Meðal þeirra sem hafa nú verið tilnefndir eru sex úr röðum sósíalista og þrír úr röðum frjálslyndra.

Hefur áhyggjur af fáum konum

Lúxemborgarinn Juncker, hefur áður lýst yfir áhyggjum að þeim fáu konum sem hafa verið tilnefndar og hefur hét því að fela konum mikilvæga málaflokka og varaforsetastöðu í þeim tilgangi að hvetja aðildarríki til að tilnefna konur. Í núsitjandi framkvæmdastjórn José Manuel Barroso eiga níu konur sæti og er því ljóst að hlutfall kvenna mun ekki hækka að óbreyttu síðar á árinu.

Juncker mun á næstu vikum skipta málaflokkum milli hinna tilnefndu framkvæmdastjóra. Leiðtogaráðið kemur svo saman þann 30. ágúst og kemur sér saman um hverjir skulu taka við stöður forseta leiðtogaráðsins af Herman van Rompuy og utanríkismálastjóra af Catherine Ashton.

Líkur á fulltrúa frá Austur-Evrópu í aðra toppstöðuna

Franska blaðið Les Echo segir að talið sé æ líklegra að fulltrúi frá austurevrópsku aðildarríki verði í fyrsta sinn fenginn til að gegna annarri toppstöðu ESB. Er hin búlgarska Kristalina Georgieva talin einna líklegust til að hreppa stöðu utanríkismálastjóra. Þó sé samkomulag um slíkt einungis mögulegt ef tekst að sannfæra Pólverja, en þeir vilja að Radosław Sikorski, utanríkisráðherra landsins, hreppi hnossið.

Náist samkomulag um Georgievu í stöðu utanríkismálastjóra, er talið líklegast að Helle Thoning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, verði valin til að gegna embætti forseta leiðtogaráðsins og taka þar með við af Belganum van Rompuy.

Ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun taka við völdum þann 1. nóvember, en fyrst þarf Evrópuþingið að samþykka framkvæmdastjórnina í heild sinni. Kosning um slíkt fer fram í október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×