Viðskipti erlent

Hægri hönd Trumps seldi gull í World of Warcraft

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ef til vill keypti þessi Warcraft-áhugamaður gull af fyrirtæki Bannons.
Ef til vill keypti þessi Warcraft-áhugamaður gull af fyrirtæki Bannons. Nordicphotos/AFP
Steve Bannon, sem var framkvæmdastjóri forsetaframboðs Donalds Trump í Bandaríkjunum og hefur nú verið ráðinn sérlegur ráðgjafi forsetaefnisins, sat í stjórn fyrirtækis um miðjan síðasta áratug sem sérhæfði sig í að selja spilurum fjölspilunarleiksins World of War­craft gull. Téð gull er helsti gjaldmiðill leiksins.

Kotaku greinir frá þessu en fyrirtækið hét Internet Gaming Enter­tainment. Gullið fékk fyrirtækið frá starfsmönnum í Kína sem unnu við spilun leiksins en sala þess fyrir raunverulegt fé er óheimil í leiknum.

Steve Bannon, ráðgjafi Trumps.Nordicphotos/AFP
Hlutverk Bannons var einna helst að tryggja fyrirtækinu fjármagn. Það gerði hann og fékk bankarisann Goldman Sachs til að fjárfesta í því fyrir nærri sjö milljarða króna. 

Fúll spilari leiksins kærði fyrirtækið árið 2007. Sættir náðust á milli aðila og hætti fyrirtækið alfarið sölu gulls. Þá varð Bannon forstjóri og þar til 2012 stýrði hann fyrirtækinu undir nýju nafni, Affinity Media. Einbeitti hann sér að rekstri á leitarvélunum Wowhead, Lolking og TF2Outpost sem gerðar eru fyrir tölvuleikina World of Warcraft, League of Legends og Team Fortress 2.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×