Innlent

Hægir á snúningi jarðar: Einni sekúndu bætt við morgundaginn

Atli Ísleifsson skrifar
Sekúndunni erbætt við til að samræma atómklukkur heimsins og snúning jarðar.
Sekúndunni erbætt við til að samræma atómklukkur heimsins og snúning jarðar. Vísir/Getty
Síðasta mínúta morgundagsins mun innihalda 61 sekúndu í stað hinna hefðbundnu sextíu. Er þetta gert til að samræma atómklukkur heimsins og snúning jarðar.

Í frétt Mashable segir að á morgun verði hægt að lesa á atómklukkum 23:59:59 og 23:59:60, áður en klukkan slær 00:00:00.

Á vef Almanaks Háskóla Íslands segir að samræmdur heimstími (Coordinated Universal Time, skammstafað UTC) sé sá tími sem venjulegar klukkur miðast við, með föstu fráviki sem fer eftir því hvar í heiminum menn eru staddir.

„Til að ákvarða þennan tíma eru notaðar atómklukkur sem ganga afar jafnt. Tíminn er þannig stilltur að hann fer mjög nærri miðtíma (meðalsóltíma) í Greenwich eins og hann er skilgreindur með tilliti til þess hvernig jörðin snýr við sólu. Sjaldnast er gerður greinarmunur á samræmdum heimstíma og miðtíma Greenwich (GMT), en þó er þarna örlítill munur á.

Munurinn stafar af óreglum í snúningi jarðar, sem hafa áhrif á meðalsóltímann en ekki atómklukkurnar. Til þess að munurinn verði aldrei meiri en 0,9 sekúndur er samræmdur heimstími leiðréttur um eina sekúndu, venjulega í lok júní eða í lok desember,“ þegar það á við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×