Enski boltinn

Gündogan: Klopp hvatti mig til að fara til Englands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp og Gündogan unnu saman hjá Dortmund.
Klopp og Gündogan unnu saman hjá Dortmund. vísir/getty
Ilkay Gündogan segir að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafi ráðlagt honum að ganga til liðs við Manchester City.

Gündogan segist hafa leitað ráða hjá Klopp áður en hann ákvað að ganga í raðir City.

„Ég spurði hann álits, hvort það væri rétt fyrir mig að fara í ensku úrvalsdeildina,“ sagði Gündogan í samtali við Bild.

„Hann svaraði því játandi og sagði að leikstíllinn hérna myndi henta mér fullkomlega,“ bætti þýski miðjumaðurinn við.

Þeir Klopp þekkjast vel frá tíma þeirra hjá Dortmund. Gündogan lék í fjögur ár undir stjórn Klopps og saman unnu þeir tvöfalt í Þýskalandi tímabilið 2011-12.

Gündogan var fyrsti leikmaðurinn sem Pep Guardiola keypti til Man City í sumar. Þjóðverjinn lék sinn fyrsta deildarleik fyrir City gegn Bournemouth um helgina og skoraði eitt mark í 4-0 sigri Manchester-liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×