Enski boltinn

Gylfi um strákana sem eru í basli í B-deildinni: „Þeir verða að halda áfram og komast í gegnum þetta“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson vonar að sínir menn komist í gang.
Gylfi Þór Sigurðsson vonar að sínir menn komist í gang. vísir/getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, trúir því staðfast að liðsfélagar hans í landsliðinu sem spila í B-deildinni á Englandi eigi eftir að rífa sig upp úr svartnættinu sem þeir ganga nú í gegnum.

Tveir byrjunarliðsmenn íslenska landsliðsins í fótbolta; Ragnar Sigurðsson og Birkir Bjarnason, og einn framtíðarmaður, Hörður Björgvin Magnússon, eiga afar erfitt uppdráttar hjá liðum sínum í ensku B-deildinni þessar vikurnar.

Sparkspekingar hér heima eru farnir að hafa áhyggjur af ástandi íslenska liðsins og spiltíma leikmanna en fyrir stafni er gríðarlega mikilvægur leikur á móti Kosóvó í undankeppni HM 2018 í lok mars.

Ragnar, sem var keyptur frá Krasnodar í Rússlandi fyrir tímabilið, er búinn að vera meira og minna í frystikistunni hjá Fulham síðan í byrjun desember en hann hefur aðeins byrjað tvo leiki í deildinni síðan þá og annað hvort ekki komið við sögu eða hreinlega ekki verið í leikmannahópnum í ellefu af síðustu fimmtán deildarleikjum. Hann hefur þó verið meiddur í síðustu leikjum.

Birkir Bjarnason var keyptur til Aston Villa frá svissneska meistaraliðinu Basel þar sem hann lék við hvern sinn fingur en eftir þrjá erfiða leiki með Villa var hann kominn á varamannabekkinn. Birkir á enn eftir að skora eða leggja upp marg.

Hörður Björgvin Magnússon spilaði alla leiki frá fyrstu mínútur til þeirrar síðustu með Bristol City frá upphafi tímabilsins til loka desember en hefur aðeins spilað einn leik af níu á þessu ári. Hann er oftast ekki einu sinni í leikmannahópnum.

Aron Einar hefur staðið sig virkilega vel með Cardiff en hinir þrír hafa ekki alveg náð að stimpla sig inn,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali í Morgunblaðinu í dag en landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson spilar eins og kóngur fyrir Cardiff þessar vikurnar.

„Fótboltinn er upp og niður og þeir verða að halda áfram og komast í gegnum þetta. Enska B-deildin er gríðarlega erfið deild og það tekur tíma að ná áttum í henni. Ég á fastlega von á að Birkir, Raggi og Hörður nái sér á strik fyrr en seinna. Þeir eru vanir því að gefast ekki upp og þeir komast í gegnum þetta,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir

Gylfi lagði upp mark í tapi á Brúnni | Sjáðu mörkin

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp jöfnunarmark Swansea í 1-3 tapi gegn Chelsea á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag en eftir sigurinn er Chelsea komið með ellefu stiga forskot á næstu lið sem eiga þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×