Fótbolti

Gylfi um Lars Lagerbäck: Gott fyrir karlinn að hann sé ennþá í fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson á EM í Frakklandi síðasta sumar.
Gylfi Þór Sigurðsson á EM í Frakklandi síðasta sumar. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson, lykilmaður íslenska fótboltalandsliðsins, er ekkert svekktur út í Lars Lagerbäck þótt að Svíinn hafi ráðið sig sem þjálfara norska landsliðsins.

Lars Lagerbäck hætti með íslenska landsliðið síðasta sumar eftir fjögurra ára starf og talaði eins og hann væri alveg hættur í þjálfun. Heimir Hallgrímsson tók við einn við landsliðinu en hann og Lars höfðu náð frábærum árangri með íslenska landsliðið saman.

Það var þó fljótlega ljóst að Lars Lagerbäck  var ekki hættur eftir allt saman. Hann aðstoðaði sænska landsliðið í haust og í vikunni tók hann síðan öllum Íslendingum að óvörum við norska landsliðinu.

Norska liðið er nú sextíu sætum neðar en það íslenska á FIFA-listanum og Norðmenn hafa hrunið niður listann á undanförnum árum á sama tíma og Lars fór með íslenska liðið inn á topp 25.

Gylfi fagnar ráðningu Lars Lagerbäck.

„Það er gott fyrir karlinn að hann sé ennþá í fótboltanum og að þjálfa,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við íþróttadeild 365.

„Það eru einhverjir óánægðir með það en hann langar örugglega að þjálfa sem flest landslið og reyna að gera góða hluti þar, sem hann mun örugglega gera,“ segir Gylfi Þór

„Svona er þetta í fótboltanum og vonandi gengur honum sem best,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson en það má lesa ítarlegt viðtal við hann í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×