Enski boltinn

Gylfi Þór valinn maður leiksins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fjórða markið sitt á árinu í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi þegar Swansea gerði jafntefli við West Bromwich Albion á útivelli, 1-1.

Gylfi Þór kom sínum mönnum yfir með laglegu marki á 64. mínútu, en velska liðið varð fyrir því óláni að fá á sig jöfnunarmark í uppbótartíma. Það er nú í 16. sæti með 26 stig, fimm stigum frá fallsæti.

Íslenski landsliðsmaðurinn fær átta í einkunn fyrir frammistöðu sína á velska vefmiðlinum WalesOnline og er valinn maður leiksins.

„Við fengum að sjá að sjálfstraustið er komið aftur í Íslendinginn. Hann tengdi betur við samherja sína en hann hefur gert í langan tíma. Hann var nálægt því að skora ótrúlegt mark og kom liðinu svo yfir,“ segir um Gylfa í einkunnagjöfinni.

Gylfi Þór fær átta í einkunn fyrir frammistöðu sína líkt og Suður-Kóreumaðurinn Ki Sung-Yeung og markvörðurinn Lukasz Fabianski, en Gylfi var stjarnan leiksins, að því fram kemur í einkunnagjöf WalesOnline.

Gylfi Þór er nú búinn að skora í fjórum af fimm deildarleikjum ársins fyrir Swansea á nýju ári og er í heildina búinn að skora sex mörk fyrir velska liðið í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð.

Markið hjá Gylfa Þór má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×