Enski boltinn

Gylfi Þór sagður ein helsta ástæða þess að Swansea mun halda sér uppi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sigurmarkinu með stæl á móti Norwich.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sigurmarkinu með stæl á móti Norwich. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson átti enn einn stórleikinn á árinu 2016 þegar hann tryggði Swansea sigur gegn Norwich, 1-0, í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Gylfi Þór er nú búinn að skora sex mörk í síðustu tíu leikjum og í heildina átta mörk. Hann er markahæstur í Swansea-liðinu ásamt Andre Ayew.

Sjá einnig:Gylfi í liði vikunnar á BBC

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur verið lang besti leikmaður Swansea á nýju ári eftir að hafa nokkuð hægt um sig fram að áramótum. Stjórabreytingin hefur farið vel í hann, en Gylfi er að blómstra undir stjórn Alan Curtis og Francesco Guidolin.

Á fréttavefnum Wales Online, sem fylgist vel með Swansea-liðinu í ensku úrvalsdeildinni, er farið ítarlega yfir fallbaráttu Swansea í skemmtilegri grein, en liðið er nú níu stigum frá öruggu sæti þegar níu umferðir eru eftir.

Töfratölurnar

Fallbaráttan er teiknuð upp með helstu tölunum sem skipta máli fyrir Gylfa Þór og félaga, en þar er byrjað á því að benda á töluna 9 í ljósi þess að Swansea er níu stigum frá falli.

Talan 28 táknar að Newcastle, sem er í harðri fallbaráttu við Swansea, hefur spilað einum leik minna en leikurinn sem liðið á til góða er reyndar á móti Manchester City.

Talan 38 er til merkis um stigafjöldann sem Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Sunderland, hefur sagt að sé nóg að safna í deildinni að þessu sinni til að halda sér uppi. Stóri Sam hefur aldrei fallið og ætti því að vita um hvað hann er að tala. Swansea þarf því aðeins fimm stig í síðustu níu leikjum liðsins, ef marka má Allardyce.

Gylfi Þór og Jack Cork hlupu manna mest.vísir/getty
Bestur á vellinum

Þá er komið að tölunni 23 en hún táknar númerið sem Gylfi Þór Sigurðsson ber á bakinu. „Númer 23 hjá Swansea, Gylfi Sigurðsson, var lang besti maður vallarins,“ segir í greininni.

„Þetta er sjötta markið hans í síðustu tíu leikjum en í heildina er hann búinn að skora átta mörk. Það var samt heildarframmistaða hans sem var svo góð, meira að segja í daufum fyrri hálfleik.“

„Enginn leikmaður kom oftar við boltann en Gylfi (74 sinnum) sem sýnir áhrif hans á vellinum. Hann gaf líka fleiri sendingar (61) en nokkur annar leikmaður og átti fleiri skot en allir leikmenn Norwich. Hann sinnti einnig skítavinnunni og vann fimm tæklingar,“ segir í umsögn um Gylfa Þór.

Íslenski landsliðsmaðurinn kemur einnig fyrir þegar dregin er upp talan 12,2 sem táknar kílómetrafjöldann sem Jack Cork, félagi Gylfa á miðjunni, hljóp í leiknum. Gylfi Þór hljóp næst mest eða 11,3 kílómetra.


Tengdar fréttir

Viðurkenna ekki stoðsendinguna hans Gylfa á móti Arsenal

Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið maðurinn á bak við tvö sigurmörk Swansea á síðustu fjórum dögum en velska liðið fór langt með að bjarga sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni með sigurleikjum á móti Arsenal og Norwich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×