Enski boltinn

Gylfi Þór að missa sætið sitt í framlínu Swansea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sækir að Petr Cech markverði Arsenal.
Gylfi Þór Sigurðsson sækir að Petr Cech markverði Arsenal. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt marka Swansea í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi þegar liðið tapaði 3-2 á móti Arsenal.

Bob Bradley stýrði liði Swansea þarna í fyrsta sinn á tímabilinu og hann ákvað að tefla íslenska landliðsmanninum fram í fremstu víglínu í leiknum á móti Arsenal.

Bob Bradley bauð upp á leikkerfið 4-3-3 þar sem Gylfi var fremstur og þeir Wayne Routledge og Mo Barrow sitt hvorum megin við hann.

Gylfi hafði verið út á vinstri kanti í tveimur síðustu leikjunum undir stjórn Francesco Guidolin en þar áður inn á miðjunni eins og jafnan með íslenska landsliðinu.

Gylfi nýtti sér tækifærið vel og skoraði fyrra mark Swansea í leiknum. Hann var einnig nálægt því að bæta við öðru marki í seinni hálfleik.

Spænski framherjinn Fernando Llorente hefur spilað sem fremsti maður Swansea á þessu tímabili en hann missti af tveimur síðustu leikjum vegna meiðsla.

Bob Bradley staðfesti það á blaðamannafundi í dag að Fernando Llorente sé leikfær og því er líklegt að Gylfi missi sætið sitt í framlínu Swansea í næsta leik þrátt fyrir að hafa skorað á móti Arsenal.

Gylfi dettur þó væntanlega ekki út úr byrjunarliðinu heldur færist fremur í sína kjörstöðu inn á miðjunni.

Swansea City, sem er í næstneðsta sæti deildarinnar, mætir Watford á heimavelli sínum Liberty Stadium á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×