Enski boltinn

Gylfi Þór á janúarlista með Griezmann, Payet, Van Dijk og Aubameyang

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er að spila frábærlega og því eðlilega eftirsóttur.
Gylfi Þór Sigurðsson er að spila frábærlega og því eðlilega eftirsóttur. vísir/getty
Félagaskiptagluginn í Evrópu var opnaður upp á gátt á nýársdag og allt þar til 31. janúar mega félög kaupa og selja leikmenn. Nema þau séu í félagaskiptabanni eins og Real Madrid.

Vefsíða The Telegraph tekur saman 100 heitustu leikmennina fyrir þennan félagaskiptaglugga en um er að ræða þá leikmenn sem fótboltaáhugamenn eiga eftir að sjá flestar fréttir um, eins og það er orðað á síðu enska dagblaðsins.

Sjá einnig:Eiður Smári á ekki lengur besta markaár Íslendings í ensku úrvalsdeildinni

Þeir sex sem teknir eru út á fyrstu síðu eru Romelu Lukaku, Everton, Antoine Griezmann, Atlético Madrid, Dmitri Payet, West Ham, Virgil van Dij, Southampton, Pierre-Emerick Aubameyang, Dortmund, og Riyad Mahrez, Leicester.

Griezmann, sem tilnefndur er sem besti leikmaður heims, er eftirsóttur af bæði Chelsea og Manchester United en hollenski miðvörðurinn Virgil van Dijk er einnig orðaður við Manchester United og Everton.

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins, er eini Íslendingurinn á listanum en Gylfi er eins manns her hjá frekar slöku liði Swansea í ensku úrvalsdeildinni sem er aðra leiktíðina í röð í mikilli fallbaráttu.

Sjá einnig:Sérfræðingur ESPN: Án Gylfa væri Swansea sennilega fallið

„The Darling of Swansea,“ segir í umsögn um Gylfa. „Sigurðsson er sagður heilla ítölsku stórliðin Roma og Inter og þá eru Leicester og Everton einnig áhugasöm um að fá hann.“

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, vildi fá Gylfa Þór til liðs við sig síðasta sumar og gerði Swansea 25 milljóna punda tilboð í Hafnfirðinginn. Hann ákvað að skrifa undir nýjan samning við Swansea en hvað gerist svo í janúar kemur í ljós.

Hér má sjá úttekt Telegraph í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×