Enski boltinn

Gylfi og félagar hlaupa meira síðan að Clement tók við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hreyfir sig mikið í leikjum Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson hreyfir sig mikið í leikjum Swansea. Vísir/Getty
Paul Clement hefur keyrt Swansea liðið í gang síðan að hann tók við liðinu af Bandaríkjamanninum Bob Bradley í byrjun nýs árs.

Swansea hefur unnið fjóra af fyrstu sex deildarleikjum ársins 2017 og er nú komið fjórum stigum frá fallsæti eftir að hafa verið í neðsta sætinu þegar Clement tók við.

Margir knattspyrnusérfræðingar hafa komið með sínar skýringar á betra gengi velska liðsins og Gylfi Þór Sigurðsson er að sjálfsögðu áberandi í allri þeirri umræðu.

Gylfi hefur komið að fimm mörkum í fimm deildarleikjum undir stjórn Paul Clement og er bæði sá sem hefur skorað flest mörk (3) og gefið flestar stoðsendingar (2) hjá Swansea síðan að Clement tók við.

Hlaupatölfræði Swansea-liðsins er líka mjög athyglisverð en þar sést svart á hvítu að leikmenn Swansea eru að hlaupa meira í sínum leikjum eftir að  Paul Clement settist í stjórastólinn.  Sky Sports tók þetta saman.

Fimm deildarleikir Swansea undir stjórn Paul Clement eru allir inn á topp sjö yfir þá leiki þar sem liðsmenn Swansea hafa hlaupið samanlagt mest inn á vellinum.  

Leikmenn Swansea hafa aldrei hlaupið meira en í sigrinum á Liverpool á Anfield en þar skoraði einmitt Gylfi Þór Sigurðsson sigurmarkið.



Liðsmenn Swansea og sjö bestu hlaupaleikir tímabilsins. (Upplýsingar frá Sky Sports).

1) 3-2 sigur á Liverpool - 120,6 km (Clement)

2) 0-4 tap fyrir Arsenal - 117,6 km (Clement)

3) 1-2 tap fyrir Man. City - 117,3 km (Clement)

4) 1-3 tap fyrir Man. Utd - 116,2 km (Bradley)

5) 2-0 sigur á Leicester - 114,6 km (Clement)

6) 1-2 tap fyrir Liverpool - 114,4 km (Guidolin)

7) 2-1 sigur á Southampton - 114,2 km (Clement)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×