Enski boltinn

Gylfi niður um 34 sæti hjá Sky Sports | Alexis Sanchez bestur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Alexis Sanchez var í efsta sæti lista Sky Sports yfir bestu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í fjórtándu umferðinni um helgina. Gylfi lækkar mikið á listanum milli vikna.

Alexis Sanchez fór á kostum í 5-1 sigri Arsenal á West Ham en hann skoraði þrennu og lagði auk þess upp eitt mark fyrir liðsfélaga sinn Mesut Özil.

Diego Costa heldur öðru sætinu á þessum vikulega lista eftir mark og stoðsendingu í 3-1 sigri Chelsea á Manchester City á Ethiad-leikvanginum.

Eden Hazard hjá Chelsea fer úr þriðja sæti niður í það fimmta en Marcos Alonso (niður um eitt sæti í 8. sæti) og Pedro (niður um fimm sæti í 9. sætið) halda báðir sæti sínu inn á topp tíu.

Hástökkvarar vikunnar eru Daninn Christian Eriksen og Harry Kane hjá Tottenham. Eriksen skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 5-0 sigri á Swansea og hækkar sig um 49 sæti og fer alla leið upp í 3. sætið.

Harry Kane skoraði einnig tvö mörk og hækkar sig líka um 49 sæti og er nú í 6. sæti listans.

Matt Phillips hjá West Bromwich Albion er nú í fjórða sæti eftir að hafa hækkað sig um þrettán sæti á listanum.

Gylfi Þór Sigurðsson nær að halda sæti sínu á topp fimmtíu listanum þrátt fyrir að hafa tapaði 5-0 á móti Tottenham með liðsfélögum sínum í Swansea. Gylfi var í 44. sæti yfir bestu frammistöðu vikunnar.

Gylfi lækkaði hinsvegar um 34 sæti en hann náði 10. sætinu eftir frábæra frammistöðu sína í 5-4 sigri á Crystal Palace vikuna á undan þar sem hann skoraði mark beint úr aukaspyrnu og átti þátt í öllum hinum fjórum mörkum Swansea-liðsins.

Sky Sports gefur út þennan lista sinn á hverjum þriðjudegi en leikmenn fá stig fyrir frammistöðu sína í leikjunum.

Þeir sem vilja bera saman tvær síðustu vikur þá er listinn fyrir viku þrettán hér en listinn fyrir viku fjórtán hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×