Enski boltinn

Gylfi lagði upp mark í tapi á Brúnni | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp jöfnunarmark Swansea í 1-3 tapi gegn Chelsea á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag en eftir sigurinn er Chelsea komið með ellefu stiga forskot á næstu lið sem eiga þó leik til góða.

Það var ljóst að róðurinn yrði erfiður fyrir Swansea að sækja stig á heimavöll toppliðs enska boltans en Swansea náði þó stigi á heimavelli gegn Chelsea fyrr í vetur.

Cesc Fabregas kom Chelsea yfir um miðbik fyrri hálfleiks með marki í 300. leik sínum í ensku úrvalsdeildinni en hann er fyrsti spænski leikmaðurinn sem nær þessum áfanga.

Landi hans Fernando Llorente jafnaði metin fyrir Swansea undir lok fyrri hálfleiks með góðum skalla eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs og fóru liðin því jöfn inn í hálfleikinn.

Gylfi var óheppinn að fá ekki vítaspyrnu um miðbik seinni hálfleiks þegar boltinn fór greinilega í hönd Cesar Azpilicueta en dómarin leiksins sá það ekki.

Stuttu síðar kom Pedro heimamönnum aftur yfir með skoti af 30 metra færi en hægt að setja stórt spurningarmerki við markmann Swansea, Lukazs Fabianski í markinu.

Diego Costa innsiglaði svo sigurinn fimm mínútum fyrir leikslok er hann skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúning Eden Hazard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×