Fótbolti

Gylfi komst í fámennan hóp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson, Íþróttamaður ársins 2016.
Gylfi Þór Sigurðsson, Íþróttamaður ársins 2016. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið í fyrsta eða öðru sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins undanfarin fjögur ár, tvisvar í efsta sæti og tvisvar í öðru sæti.

Gylfi er fjórði íþróttamaðurinn sem nær slíkum stöðuglega í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna. Sundmaðurinn Örn Arnarson á metið en hann var í efstu tveimur sætunum fimm ár í röð frá 1998 til og með 2002.

Tugþrautarkappinn Jón Arnar Magnússon (1995 til 1998) og knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen (2003 til 2006) náðu báðir að vera í tveimur efstu sætunum fjögur ár í röð eins og Gylfi.

Handboltamaðurinn Ólafur Stefánsson var í tvígang á topp tvö þrjú ár í röð en aldrei fjögur ár í röð.

Þrístökkvarinn Vilhjálmur Einarsson var kosinn Íþróttamaður ársins fimm sinnum á fyrstu sex árunum en náði þó ekki að vera fjögur ár í röð meðal tveggja efstu. Sundmaðurinn Eðvarð Þór Eðvarðsson og kúluvarparinn Hreinn Halldórsson voru líka á topp tveimur þrjú ár í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×