Enski boltinn

Gylfi hefur mætt Neuer, Cech og De Gea en Gomes er besti markvörðurinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gomes og Gylfi.
Gomes og Gylfi. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins, stillir upp þremur áhugaverðum liðum í nýrri bók sem fjallar um atvinnumannaferil hans, Atvinnumaðurinn Gylfi Sigurðsson.

Gylfi stillir upp draumaliði sínu, en með því spila fjórir leikmenn Manchester City. Einnig stillir hann upp liðinu með bestu meðspilurunum og að lokum ellefu manna liði með erfiðustu andstæðingunum.

Sjá einnig:Gylfi Þór: Skrítið að spila undir stjórn mesta grínarans í liðinu

Sú staða sem kemur mest á óvart í því liði er markvarðastaðan. Þrátt fyrir að hafa mætt markvörðum á borð við Manuel Neuer, David De Gea, Pepe Reina, Petr Cech og Hugo Lloris er Brasilíumaðurinn Heurelho Gomes besti markvörður sem hann hefur spilað á móti.

„[Þetta] kemur væntanlega mörgum á óvart þar sem flestir muna eftir nokkrum mistökum sem hann gerði á sínum tíma hjá Tottenham, en sem markmaður í að stoppa skot og koma út einn á móti einum er hann einn sá besti sem ég hef spilað á móti. Stór, með mikinn stökkkraft og fljótur að bregðast við,“ segir Gylfi um Gomes.

Gomes kom til Tottenham frá PSV Einhoven og spilaði 97 leiki, en eins og Gylfi minnist á var hann þekktur fyrir ansi skrautleg mistök.

Hann gekk í raðir Watford í fyrra og átti stóran þátt í að koma liðinu upp um deild, en hann ver mark nýliðanna í ensku úrvalsdeildinni.

Aðrir leikmenn sem eru þeir bestu sem Gylfi Þór eru mætt eru Nemanja Vidic, fyrrverandi miðvörður Manchester United, Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid og Luis Suárez, framherji Barcelona.

Meira um erfiðustu andstæðinga Gylfa Þórs má lesa í bókinni Atvinnumaðurinn Gylfi Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×