Enski boltinn

Gylfi getur ekki hætt að hlæja að liðsfélaga sínum hjá Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Mason Holgate, einn af ungu leikmönnunum hjá Everton, talaði af sér á dögunum og hefur verið mikið strítt á æfingasvæði félagsins síðan.

Sá sem hefur haft einna mest gaman af þessari vandræðalegu stund í búningsklefanum hjá stráknum var Gylfi okkar Sigurðsson.

Liverpool Echo sagði frá raunum stráksins sem hefur fengið mikið að heyra það frá liðsfélögum sínum eftir að hafa viðurkennt það að hann tryði því ekki að hreindýr væru til.

Mason Holgate sagði frá því í viðtali í nýjustu leikskrá Everton að þetta væri það vandræðalegasta sem hann hafi lent í til þessa á ævinni.

Mason Holgate spilaði í vörn Everton í sigri á Bournemouth um helgina sem var fyrsti sigurleikurinn sem Gylfi Þór Sigurðsson tekur þátt í sem leikmaður félagsins.

„Um daginn vissi ég ekki hvað hreindýr væri. Núna segir alltaf einhver eitthvað við mig á hverri æfingu. Þetta var slæmt fyrir mig því ég hélt að þau væru bara skáldskapur,“ sagði Mason Holgate.

„Mér er strítt mjög mikið vegna þessa og þá sérstaklega af Gylfa. Ég fæ síðan örugglega að heyra það ennþá meira um jólin,“ sagði Holgate.

Í frétt Liverpool Echo kemur það fram að um sex þúsund dýra hreindýrastofn lifi á Íslandi.

Mason Holgate.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×