Enski boltinn

Gylfi eini Íslendingurinn sem spilar með einu af ríkustu félögum heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það er nóg til hjá Everton en það keypti Gylfa Þór á 45 milljónir punda.
Það er nóg til hjá Everton en það keypti Gylfa Þór á 45 milljónir punda. vísir/getty
Manchester United er aftur orðið tekjuhæsta félag heims en það hirti efsta sætið af Real Madrid í Deloitte-peningadeildinni sem er árleg úttekt endurskoðunarfyrirtækisins á ríkustu félagsliðum heims og tekur mið af tekjum þeirra á síðustu leiktíð.

Tíu félög frá Englandi eru á meðal 20 ríkustu liðanna en heildartekjur liðanna 20 á síðustu leiktíð námu tæpum sjö milljörðum punda sem fer langt með að sprengja íslenskar reiknivélar.

Tekjur Manchester United voru 581 milljónir punda á síðustu leiktíð en Real Madrid var í öðru sæti aðeins hálfri annarri milljón á eftir United. Aldrei áður hefur verið svona lítill munur á tveimur efstu sætunum.

Samkvæmt frétt Sky Sports um peningadeildina hefði United ekki náð efsta sætinu án sigurs í Evrópudeildinni en 39 milljónirnar sem félagið fékk fyrir sigur í henni tryggði því á endanum efsta sætið.

Manchester City er næsta enska félag á listanum á eftir Manchester United í fimmta sæti en Real Madrid, Barcelona og Bayern München eru þar á milli í sætum tvö til fjögur.

Gylfi Þór Sigurðsson er eini Íslendingurinn sem leikur með einu af 20 ríkustu félögum heims en Everton er í 20. sæti listans.

Deloitte-peningadeildin

1. Manchester United

2. Real Madrid

3. Barcelona

4. Bayern Munich

5. Manchester City

6. Arsenal

7. PSG

8. Chelsea

9. Liverpool

10. Juventus

11. Tottenham

12. Borussia Dortmund

13. Atletico Madrid

14. Leicester

15. Inter Milan

16. Schalke

17. West Ham

18. Southampton

19. Napoli

20. Everton




Fleiri fréttir

Sjá meira


×