Enski boltinn

Gylfi deilir efsta sætinu yfir flestar stoðsendingar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Spænska sveit Chelsea eltist við Gylfa í gær.
Spænska sveit Chelsea eltist við Gylfa í gær. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, deilir efsta sætinu með Kevin De Bruyne, leikmanni Manchester City, yfir þá leikmenn sem hafa lagt upp flest mörk á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi hefur verið hreint út sagt magnaður í liði Swansea undanfarna mánuði en hann hefur á tímum borið liðið á herðum sér er liðið berst fyrir lífi sínu í deildinni.

Lagði hann upp jöfnunarmark Fernando Llorente fyrir Swansea í gær í 1-3 tapi gegn toppliði Chelsea á útivelli en þetta var níunda stoðsending Gylfa á þessu tímabili.

Hefur hann auk þess skorað sjö mörk í tuttugu leikjum Swansea.

Hefur hann því komið að sextán mörkum Swansea í vetur af 32 eða helming marka Swansea í leikjum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×