Innlent

Gylfi: Ungt fólk og útlendingar verða sífellt fyrir barðinu á ósvífnum atvinnrekendum

Ásgeir Erlendsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir að ungt fólk og útlendingar á vinnumarkaði verði sífellt fyrir barðinu á ósvífnum atvinnrekendum og kjarklausum embættismönnum sem virði hvorki kjarasamninga né réttindi launafólks.

Þetta kom fram í máli Gylfa á baráttufundi verkalýðsfélaga í Reykjavík í dag. Þúsundir manna um allt land tóku þátt í fyrsta maí kröfugöngum.

„Það er athyglisvert að á þessu aldarafmæli ASÍ erum við að glíma við svipuð mál og í árdaga hreyfingarinnar.  Við erum ennþá líkt og þá að berjast fyrir því að fólk fá greidd mannsæmandi laun, að hvíldartími sé virtur og að aðbúnaður og öryggi launafólks sé í lagi,“ sagði Gylfi í ræðunni á Ingólfstorgi í dag.

„Núna eru það einkum útlendingar og ungt fólk sem verður fyrir barðinu á ósvífnum atvinnurekendum og kjarklausum embættismönnum, en þessir hópar búa að minnstum upplýsingum um réttindi sín og standa því veikt fyrir. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar er skýr; undirboð á vinnumarkaði eru ekki bara óásættanleg heldur grafa þau undan því vinnumarkaðskerfi sem við viljum hafa á Íslandi. Við ætlumst til þess að komið sé fram af sanngirni og virðingu við fólk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×