Enski boltinn

Gylfi: Höfum ekki verið líkir sjálfum okkur í síðustu leikjum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City hafa gefið aðeins eftir í undanförnum leikjum og misstu í tvígang niður forystu á móti Tottenham í gær.

Swansea City var í fjórða sætinu eftir fjóra leiki en er nú dottið niður í 11. sæti eftir að hafa aðeins náð í tvö stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum.

„Við ætluðum okkur að ná í öll þrjú stigin eftir gengið að undanförnu," sagði Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali við heimasíðu Swansea City.

„Þetta hefði getað fallið hvorum megin sem er en þetta voru að mínu mati sanngjörn úrslit þegar upp var staðið," sagði Gylfi en Daninn Christian Eriksen jafnaði tvisvar fyrir Tottenham og í bæði skiptin með því að skora beint úr aukaspyrnu.

Fyrir leikinn hafði Swansea tapað tveimur af síðustu þremur leikjum sínum (á móti Watford og Southampton) og gert markalaust jafntefli við Everton.

„Við byrjuðum tímabilið mjög vel en við höfum ekki verið líkir sjálfum okkur í þremur til fjórum síðustu leikjum," sagði Gylfi.

Swansea vann Manchester United og Newcastle í fyrstu fjórum umferðunum og gerði jafntefli við Chelsea og Sunderland.

„Við höfum verið að tapa stigum sem mun gerast á tímabilinu en það er ennþá mikið eftir. Ef við spilum okkar fótbolta þá verðum við í efri hlutanum," sagði Gylfi.

Hann er nú á leiðinni til Íslands þar sem hann hittir fyrir félaga sína í landsliðinu fyrir tvo síðustu leikina í undankeppni EM.

„Næsta á dagskrá er landsleikjahlé en við getum byggt ofan á leikinn á móti Tottenham og komið okkur aftur í gang," sagði Gylfi.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað eitt mark og gefið eina stoðsendingu í fyrstu átta leikjum Swansea City í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann hefur verið í byrjunarliðnu í þeim öllum.


Tengdar fréttir

Eriksen tryggði Tottenham stig gegn Swansea

Danski miðjumaðurinn Christian Eriksen setti tvö mörk í 2-2 jafntefli Tottenham og Swansea í dag en bæði mörk hans komu beint úr aukaspyrnum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×