Enski boltinn

Gylfi: Hélt áður með United en þarf nú að sækja stig á Old Trafford

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var hetja Swansea í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar, en Hafnfirðingurinn skoraði eitt og lagði upp annað í 2-1 sigri velska liðsins á Manchester United.

Hann var í símaviðtali við Messuna í kvöld á Stöð 2 Sport 2, þar sem hann viðurkenndi fúslega að menn fögnuðu þessum flotta sigri innilega.

„Það var mjög góð stemning í klefanum eftir leikinn og fyrstu tvo dagana voru menn sáttir. En þegar líður á vikuna fara menn að einbeita sér að næsta leik,“ sagði Gylfi Þór.

Hjörvar Hafliðason spurði Gylfa hvort liðsmenn Swansea hafi verið meðvitaðir um litla reynslu sumra leikmanna United.

„Auðvitað. Það voru margir ungir leikmenn að byrja sinn fyrsta leik á Old Trafford. Við gáfum okkur það, að þeir myndu finna fyrir mikilli pressu. Við nýttum okkur það og sóttum mikið upp kantana,“ sagði Gylfi sem er nú búinn að vinna félagið sem hann studdi sem krakki þrisvar sinnum í röð á Old Trafford.

„Ég hélt með þeim þegar ég var yngri, en nú þarf maður að sækja þrjá punkta í hvert skipti sem maður fer þangað,“ sagði hann.

Landsliðsmaðurinn leikur nú undir stjórn GarrysMonks, en síðast þegar hann lék með Swansea var Brendan Rodgers, núverandi stjóri Liverpool, við stjórnvölinn.

„Þeir líkjast hvor öðrum, en eru allt ólíkir þjálfarar. Monk er hafsent og hugsar því vel og mikið um varnarleikinn. Brendan leggur mikla áherslu á hvernig liðin vinna varnarlega en hugsaði meira um sóknarboltann.“

Aðspurður hvers vegna hann valdi sér treyju númer 23 sagði Gylfi svo:

„Tuttugu og tvö var ekki laust. Mér bauðst að taka níuna, en mig langaði ekkert í hana þannig ég tók bara 23. Auðvitað hafa frægir menn eins og Jordan og Beckham notað númer 23. Ég held þú viljir að ég segi þetta,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

Auk þess að sýna alla leikina í ensku úrvalsdeildinni er Messan með Gumma Ben og Hjörvari Hafliða nú á dagskrá þrisvar sinnum í viku á Stöð 2 Sport 2. Á fimmtudögum eru helstu fréttapunktar vikunnar ræddir. Fáðu þér áskrift hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×