Enski boltinn

Gylfi: Hann er nokkuð slæmur, er það ekki?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Skjáskot
Gylfi Þór Sigurðsson var í stórskemmtilegu viðtali við Soccer AM-sjónvarpsþáttinn sem er sýndur á Sky Sports.

Þar er farið yfir Instagram-síðu Gylfa Þórs og flett í gegnum skemmtilegar myndir sem hann hefur birt þar. Til að mynda af honum og kylfingnum Rory McIlroy, Alexöndru Helgu kærustu hans og bókinni sem hann gaf út á Íslandi fyrir jólin.

Þá er einnig sýnt myndband frá fögnuðinum á Ingólfstorgi eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM í fótbolta síðastliðið haust. Gylfi, sem drekkur ekki áfengi, sagði frá því að hann hefði lofað félögum sínum í landsliðinu að hann myndi halda upp á EM-sætið með því að drekka vínglas.

„En þeir voru allir svo fullir að það kom aldrei til þess,“ sagði hann.

Talið barst svo af bikarnum sem Gylfi fékk fyrir að vera valinn íþróttamaður ársins árið 2013. Eins og Gylfi benti á eru ekki allir jafn ánægðir með útlit bikarsins góða.

„Hann er nokkuð slæmur, er það ekki,“ sagði hann og hló. „En ég er ánægður með að ég var valinn og vonandi gerist það aftur.“

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×