Innlent

Gyðingar á Íslandi sameinist

Berel Pewzner og Mendy Tzfasman dvelja hér í tvær vikur, bæði til að leiða aðalpáskamáltíð gyðinga og til að tengja saman gyðinga búsetta hérlendis. Mynd/Úr einkasafni
Berel Pewzner og Mendy Tzfasman dvelja hér í tvær vikur, bæði til að leiða aðalpáskamáltíð gyðinga og til að tengja saman gyðinga búsetta hérlendis. Mynd/Úr einkasafni
„Það má segja að þetta sé fjársjóðsleit okkar að gyðingum búsettum á Íslandi. Við höfum ferðast víða um heim, í þessum sama tilgangi; að finna gyðinga og tengja þá saman í því samfélagi sem þeir búa í," segir Berel Pawzner rabbínanemi frá Bandaríkjunum.

Hann og félagi hans, Mendy Tzfasman, munu dvelja í tvær vikur á landinu. Í kvöld leiða þeir kvöldmáltíð páskahátíðar gyðinga í sal í Reykjavík en máltíðin samanstendur af matarréttum sem tákna ýmsa þætti í flóttanum úr ánauð gyðinga í Egyptalandi sem segir frá í biblíunni. Við málsverðinn er frásögnin rifjuð upp og á einkum að halda athygli barnanna.

„Við komum með fullar töskur af matvælum fyrir helgimáltíðina, svo sem ósýrt flatbrauð, vínberjasafa og fleira. Við gátum auðvitað ekki komið með kjöt eða slíkar vörur með okkur út af reglugerðinni en við viljum gjarnan fá gyðinga hérlendis til að sameinast með okkur í kvöld," segir Berel. Hann bendir þeim gyðingum sem kunna að lesa þetta á að hafa samband í tölvupósti í dag en netfangið er icelandseder@gmail.com.

„Við höfum þegar fundið nokkra gyðinga en við teljum að þeir séu mun fleiri en vitað er um. Við viljum hitta þá og styðja andlega og styrkja samfélag þeirra á Íslandi. Það skiptir engu máli hversu marga við finnum, hver manneskja sem við rekumst á er demantur," segir Berel, en þeir félagar nota ekki bara internetið í leit sinni heldur ganga þeir um götur bæjarins, kíkja inn í verslanir og spyrja fólk hvort það viti um gyðinga búsetta hérlendis. Þeir hvetja fólk til að hafa samband við sig í gegnum tölvupóstinn.

juliam@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×