Lífið

Gwyneth Paltrow bar vitni gegn manni sem hefur hrellt hana í 17 ár

Birgir Olgeirsson skrifar
Gwyneth Paltrow.
Gwyneth Paltrow. Vísir/Getty
Óskarsverðlaunahafinn Gwyneth Paltrow bar vitni gegn manni sem er sakaður um hrella hana síðastliðin sautján ár. Paltrow sagði við réttarhöldin í Los Angeles í gær að hún hefði óttast um öryggi sitt eftir að hafa fengið fjölda bréfa frá manninum sem sagðist hafa það að markmiði að kvænast leikkonunni.

Paltrow las upp úr bréfunum sem Dante Michael Soiu, 67 ára, sendi henni. Sagðist hún telja þessi skrif Soiu vera trúarleg, klámfengin og ógnandi.

Hún sagði Soiu hafa sent henni um 70 bréf, matreiðslubók, fatnað og fleiri muni á þessu tímabili.

Árið 2010 sendi Soiu henni bréf sem sagði: „Þú átt enga von. Núna verður þú að deyja. Þú verður að deyja svo Kristur hafi yfirburði.“

Vitnisburður Paltrow stóð yfir í um þrjár klukkustundir en hún sagðist hafa óttast um öryggi fjölskyldu sinnar.

Verjandi Soiu sagði hann  meinlausan og að Paltrow hefði mistúlkað bréf hans. Sagði verjandinn Soiu hafa viljað senda henni trúarlegan boðskap.

Soiu neitar sök en þetta er í annað skiptið sem hann er ákærður fyrir að hrella Paltrow. Árið 2001 var hann sýknaður af ákæru um að hafa hrellt hana eftir að hafa verið metinn ósakhæfur. Hann var vistaður í rúm þrjú ár á geðheilbrigðisstofnun eftir þau réttarhöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×