Enski boltinn

Gutierrez vandar Ashley ekki kveðjurnar

Jonas Gutierrez kvaddi Newcastle United með stæl.
Jonas Gutierrez kvaddi Newcastle United með stæl. vísir/getty
Nú hefur verið staðfest að Jonas Gutierrez yfirgefi Newcastle United eftir sjö ár hjá félaginu en samningur hans rennur út eftir mánuð. Óhætt er að segja að Gutierrez vandi Mike Ashley, eiganda Newcastle, ekki kveðjurnar.

"Ég hef lært tvennt í veikindum mínum, hvernig styðja má leikmann (stuðningsmenn Newcastle) og hvernig hunsa á leikmann (eigandi Newcastle)," skrifaði Gutierrez á Twitter-síðuna sína en hann greindist með krabbamein í eista fyrir tveimur árum síðan.

Það er óhætt að segja að Gutierrez hafi gengið í gegnum súrt og sætt með Newcastle frá því að hann kom til liðsins árið 2008. Liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni árið 2009 og Gutierrez átti stóran þátt í því að koma liðunu upp í úrvalsdeildina á nýjan leik aðeins ári síðar.

Hann greindist með krabbamein eins og áður sagði árið 2013, var lánaður til Norwich í janúar 2014 en snéri aftur til Newcastle. Hann spilaði sinn fyrsta leik eftir veikindin í mars á þessu ári og var svo stór örlagavaldur á lokadegi deildarinnar þegar Newcastle náði að bjarga sér frá falli. Þar lagði hann upp eitt mark og skoraði annað í 2-0 sigri á West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×