Fótbolti

Gurdiola: Ég gaf Bayern líf mitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Pep Guardiola segir að það sé rangt að halda því fram að þriggja ára dvöl hans hjá Bayern München hafi verið misheppnuð vegna þess að honum mistókst að vinna Meistaradeild Evrópu með liðinu.

Bayern féll úr leik í undanúrslitum keppninnar í gær þrátt fyrir 2-1 sigur á Atletico Madrid. Madrídingar fóru áfram á útivallamarkareglunni eftir 1-0 sigur í fyrri leiknum á heimavelli.

Sjá einnig: Atletico Madrid í úrslit Meistaradeildarinnar

„Markmið mitt var að ná þessum titli,“ sagði Guardiola eftir leikinn í gær en hann tekur við stjórn Manchester City í sumar.

„Við gerðum okkar besta en það gekk ekki. Hver verður svo að gera upp hug sinn varðandi mína dvöl hér en ég tel að ég hafi hjálpað leikmönnum félagsins. Ég er afar ánægður með frammistöðu þeirra.“

„Kannski náði ég ekki nógu góðum árangri en ég er ánægður með dvöl mína hér. Ég gerði mitt besta og leikmennirnir vita það.“

„Ég gaf félaginu líf mitt frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og við spiluðum vel í kvöld. Kannski voru aðrir leikir þar sem við spiluðum ekki jafn vel en ég er afar stoltur. Það var sannur heiður að fá að þjálfa þessa leikmenn. Ég hef notið mín hér og ég er viss um að Bayern eigi fullkomna framtíð með þessa leikmenn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×