Íslenski boltinn

Gunnleifur tekur eitt ár í viðbót með Blikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. Vísir/Stefán
Gunnleifur Gunnleifsson hefur framlengt samning sinn við Breiðablik í Pepsi-deild karla og mun því að minnsta kosti taka eitt tímabil í viðbót með liðinu.

Gunnleifur sagði frá nýja samningnum sínum inn á fésbókinni. Gunnleifur heldur upp á 43 ára afmælið sitt næsta sumar en er ennþá í hópi allra bestu markvarða íslensku úrvalsdeildarinnar.

Gunnleifur hefur spilað með Blikum frá og með árinu 2013 en hann kom til liðsins eftir að hafa varið mark Íslandsmeistara FH sumarið 2012.

Gunnleifur hefur ekki misst úr leik síðan að hann kom í Kópavoginn en hann hefur nú spilað 103 síðustu leiki Blika í efstu deild.

Gunnleifur er alls kominn með 254 leiki í efstu deild karla á Íslandi og er kominn í hóp leikjahæstu leikmenn deildarinnar frá upphafi.

Ef hann spila þá sjö leiki sem eru eftir í sumar og alla 22 leikina á næsta ári þá á hann möguleika á því að komast inn á topp fjögur á listanum eftir næsta tímabil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×