Íslenski boltinn

Gunnleifur: Ólafur Karl fór yfir strikið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. Vísir/Ernir
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, segir að Ólafur Karl Finsen hafi farið langt yfir strikið þegar Stjörnumaðurinn fór inn í búningsklefa Blika og rótaði þar í persónulegum munum leikmanna Breiðabliks.

Atvikið átti sér stað nokkrum dögum fyrir leik liðanna í Pepsi-deild karla í gær. Breiðablik vann sannfærandi 3-0 sigur en Stjarnan hafði ekki tapað 27 deildarleikjum í röð þar til í gær.

„Ég vil taka það fram að ég þekki Óla Kalla aðeins og hann er eðaldrengur,“ sagði Gunnleifur í útvarpsþættinum Akraborgin á X-inu 977 í morgun.

„Ég held að hann hafi talið sig vera að gera eitthvað gott fyrir leikinn og peppa hann upp. En þarna fór hann alveg yfir strikið.“

„Klefinn er heilagur hjá fótboltamönnum. Það tíðkast bara ekki að menn fari inn í klefa hjá andstæðingi. Það sýnir virðingaleysi og leikmenn mega aðeins horfa í gömlu gildin og sýna hverjum öðrum virðingu.“

Gunnleifur minntist á atvik sem átti sér stað í leik Vals og FH þegar orðaskipti á milli leikmanna inni á vellinum rötuðu í fjölmiðla.

„Það er tímabært að staldra aðeins við og sýna þessu ákveðna virðingu. Það á endilega að halda það,“ sagði Gunnleifur sem var furðu lostinn þegar hann horfði á áðurnefnt myndband.

„Ég var alltaf að bíða eftir því að einhver segði djók. Ég bara náði þessu ekki. Hann fór yfir strikið og lærir af þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×