Fótbolti

Gunnhildur Yrsa: Reynslan hjálpaði mikið til

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Valli
Gunnhildur Yrsa Sigurðardóttir er kominn á fullt skrið með landsliðinu eftir þriðja krossbandsslitið á ferlinum.

Þegar hún kom inn á sem varamaður í 3-0 sigrinum gegn Ísrael um helgina höfðu nákvæmlega átján mánuðir liðið frá síðasta landsleik hennar.

Hún sleit krossband í vinstra hné í fyrra en áður hafði hún tvívegis slitið krossbandið í hægra hnénu. Gunnhildur Yrsa leikur með Grand Bodö í Noregi en þangað fór hún í sumar eftir tveggja ára dvöl hjá Arna Björnar.

„Það er frábært að fá tækifæri með landsliðinu aftur. Ég hef lagt mikið á mig í þetta ár sem ég var frá,“ sagði Gunnhildur Yrsa á æfingu landsliðsins í gær. Hún byrjaði að sparka í bolta á ný í febrúar á þessu ári og spilaði svo sinn fyrsta leik í maí.

„Fyrst um sinn spilaði ég í 20-25 mínútur í senn en ég fór ekki að spila í 90 mínútur fyrr en í ágúst. Þetta var erfitt að treysta hnénu fyrst um sinn en ég er með svo mikið keppnisskap að það gleymist um leið og út í leikinn er komið.“

„Það hjálpaði mikið til að ég hef gengið í gegnum svona endurhæfingu áður auk þess að það var gott að vera úti og hafa alltaf aðgang að sjúkraþjálfara. Þá reyndist þjálfarinn minn mér mjög vel.“

Hún segir góðan anda ríkja í landsliðshópnum sem er yngri nú en oft áður. „Við viljum vinna þennan leik eins og allra aðra og hann skiptir miklu máli upp á næstu undankeppni að gera. Ungu stelpurnar eru mjög góðar, bæði viljugar og óhræddar. Þær hafa staðið sig vel.“

Leikurinn hefst klukkan 17.00 í dag en honum verður lýst á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.


Tengdar fréttir

Gunnhildur færir sig um set

Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hefur fært sig um set í norsku úrvalsdeildinni, en hún er gengin í raðir Grand Bodo frá Arnar Björnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×