Fótbolti

Gunnhildur um áreksturinn: Ætlaði ekkert að fara útaf

Gunnhildur, hér neðst til hægri, var skiljanlega svekkt að leikslokum.
Gunnhildur, hér neðst til hægri, var skiljanlega svekkt að leikslokum. Vísir/getty
„Við spilum á köflum frábærlega en við hleyptum þeim inn í leikinn og áttum að gera betur varnarlega sem og inn í vítateignum, það er margt sem mátti fara betur,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður íslenska liðsins, svekkt í samtali við Eddu Sif Pálsdóttur eftir leik á RÚV.

„Það var margt gott í þessu en margt slæmt sem má betur fara. Maður þarf að halda einbeitingu allan leikinn í leikjum eins og þessum sem er mikið um stopp.“

Gunnhildur átti sinn þátt í tíu mínútna töf sem varð á leiknum þegar hún og Gaëlle Thalmann skölluðu saman en gert var að meiðslum Thalmann í tíu mínútur.

„Ég fer upp í boltann eins og hún og við lendum bara saman, höfuð í höfuð. Ég veit ekkert hvert boltinn fór en þetta var bara óhapp í 50/50 einvígi en ég var ekkert á því að fara út af, ég var til í að halda áfram.“

Íslenska liðið á enn veika von um sæti í 8-liða úrslitum en stelpurnar þurfa að treysta á önnur lið.

„Það er erfitt en auðvitað eigum við ennþá möguleika, það fer allt eftir úrslitunum í kvöld. Við förum allavegnana inn í leikinn gegn Austurríki alveg brjálaðar og ætlum okkur að vinna þann leik. Við höfum núna nokkra tíma til að svekkja okkur en það er leikur eftir fjóra daga og við þurfum bara að rífa okkur í gang,“ sagði Gunnhildur ákveðin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×