Körfubolti

Gunnar fagnaði sigri á móti Martin og Elvari í þriðja sinn í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Ólafsson.
Gunnar Ólafsson. Vísir/Getty
Gunnar Ólafsson og félagar í St. Francis Brooklyn eru komnir í undanúrslit NEC-riðilsins í bandaríska háskólaboltanum eftir níu stiga sigur á LIU Brooklyn í nótt, 79-70.

Gunnar Ólafsson spilaði allar átta mínútur sínar í fyrri hálfleiknum þar sem hann var með 2 stig og 2 sóknarfráköst. St. Francis Brooklyn lagði líka grunninn að sigrinum með því að vinna fyrri hálfleikinn 35-22.

Það var svolítið skrýtin ákvörðun að setja Gunnar ekki aftur inn á völlinn því St. Francis Brooklyn vann þær átta mínútur sem hann spilaði 17-4.

Elvar Már Friðriksson var með 8 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst á 31 mínútu og Martin Hermannsson skoraði 8 stig, gaf 4 stoðsendingar og tók 2 fráköst á 30 mínútum.

Gunnar hefur þar með fagnað þrisvar sinnum sigri á íslensku nágrönnunum sínum í LIU Brooklyn í vetur. St. Francis vann fyrsta leikinn 81-64 í lok janúar, annan leikinn 74-69 eftir framlengingu í lok febrúar og svo 79-70 sigur í nótt.

St. Francis Brooklyn er komið í undanúrslit NEC-riðilsins í fyrsta sinn síðan 2002-03 og mætir þar liði Saint Francis University á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×