Viðskipti innlent

Gunnar fær hálfri milljón meira en borgarstjóri

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar eru launahæsti bæjarstjóri landsins með 1,8 milljón króna í mánaðarlaun. Hann er hálfri milljón króna launahærri á mánuði en borgarstjóri.



Flest sveitarfélög hafa gengið frá ráðningarsamingi við sveitar- eða bæjarstjóra eftir sveitarstjórnakosningar sem fram fóru í byrjun sumars. Fréttablaðið og Stöð 2 könnuðu launakjör æðstu stjórnenda í helstu sveitarfélögum landsins fyrir tveimur árum. Þá var Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, launahæstur með um 1600 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Fréttastofa fékk í gær upplýsingar um launakjör í sex fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Gunnar Einarsson er áfram launahæsti bæjarstjóri landsins en hann er með um 1.800 þúsund krónur í laun á mánuði. Að auki fær Gunnar tæpar 200 þúsund krónur fyrir setu í stjórnum sambands íslenskra sveitarfélaga og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Heildarlaun hans nema því tæpum tveimur milljónum króna á mánuði.

Föst laun Gunnars er um hálfri milljón króna hærri en laun Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem er með um 1300 þúsund krónur í laun á mánuði. Laun borgarstjóra hafa síðustu ár verið í takt við laun forsætisráðherra.

Laun bæjarstjóra Hafnarfjarðar hækka verulega

Athygli vekur að laun nýráðins bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, Haraldar Líndal Haraldssonar, eru talsvert hærri en fyrrverandi bæjarstjóra, Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar fékk greiddar um 1,1 milljónir króna í laun mitt ár 2012 en Haraldur fær um 1,5 milljón króna í laun samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ.

Laun Eiríks Björns Björgvinssonar bæjarstjóra á Akureyri hækka um 10% á tveimur árum og er hann nú með um 1,1 milljón króna í mánaðarlaun. Gengið var frá launakjörum Kjartans Más Kjartanssonar nýráðins bæjarstjóra Reykjanesbæjar í gær. Hann fær um 1350 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Eini bæjarstjórinn sem lækkar í launum í úttekt Stöðvar 2 er Ármann Kr. Ólafsson. Laun Ármanns lækka úr tæpum 1500 þúsundum árið 2012 í 1300 þúsund nú. Ármann situr ekki í bæjarráði sem skýrir launalækkun hans. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ verður endursamið við Ármann um launakjör í haust.

Laun bæjarstjóra í sex fjölmennustu sveitarfélögum landsins:

Sveitarfélag - 2012

Reykjavík - 1.237.104 kr.

Kópavogur - 1.496.988 kr.

Hafnarfjörður - 1.089.990 kr.

Garðabær - 1.572.711 kr

Akureyri - 1.033.266 kr.

Reykjanesbær - 1.260.185 kr.

* Tölur frá viðkomandi sveitarfélögum

Sveitarfélag - 2014

Reykjavík - 1.315.592 kr

Kópavogur - 1.304.178 kr.

Hafnarfjörður - 1.480.000 kr.

Garðabær - 1.762.908 kr.  

Akureyri - 1.141.729 kr.

Reykjanesbær - 1.340.000 kr.

* Tölur frá viðkomandi sveitarfélögum

Uppfært: Oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði bendir á að Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, hafi þegið laun sem bæjarfulltrúi meðfram starfi sínu sem bæjarstjóri. Laun hennar hafi því verið 1.250.000 kr. á mánuði en ekki tæp 1,1 milljón líkt og greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×