Innlent

Íslendingar kjósa forseta lýðveldisins í dag

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Gunnar 24.06.16
Gunnar 24.06.16
Nýr forseti Íslands verður kjörinn í dag er Íslendingar ganga að kjörborðinu og kjósa á milli þeirra níu frambjóðenda sem gefið hafa kost á sér. Fréttastofa 365, Vísir, Stöð 2 og Bylgjan verða með umfjöllun um kosningarnar í allan dag. 

Kjörstaðir eru almennt opnir á milli 9 og 22 en kjörstjórnir hafa þó frelsi til þess að byrja og hætta fyrr. Upplýsingar um opnunartíma kjörstaða má finna hér

Kjósendur geta kannað hvar þeir eiga að kjósa með því einfaldlega að fletta eigin kennitölu upp í kjörskrá sem finna má hér

„Kosningarétt við forsetakosningarnar 25. júní 2016 eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og lögheimili eiga hér á landi. Jafnframt eiga kosningarétt þeir íslenskir ríkisborgarar sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda eftir 1. desember 2007 og náð hafa 18 ára aldri á kjördag. Þá eiga kosningarétt þeir íslenskir ríkisborgarar, sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda fyrir 1. desember 2007, enda hafi þeir sótt um það til Þjóðskrár Íslands  fyrir 1. desember 2015,“ segir á vef innanríkisráðuneytisins.

Framvísa þarf skilríkjum til þess að fá heimild til þess að kjósa, til dæmis vegabréfi eða ökuskírteini.

Frambjóðendur eru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson. Upplýsingar um frambjóðendur og baráttuna má finna á Forsetavef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×