Íslenski boltinn

Gunnar: Væri voða gaman að fá heimaleik gegn liði eins og FH

Ingvi Þór Sæmundsson á JÁVERK-vellinum skrifar
Gunnar Rafn Borgþórsson er kominn með Selfoss í 8-liða úrslit Borgunarbikars karla eftir 4-3 sigur strákanna hans á Víði í kvöld.

Leikurinn var frábær skemmtun og sveiflukenndur í meira lagi en það var Andrew Pew sem skaut, eða öllu heldur skallaði, Selfoss áfram í 8-liða úrslitin með marki í framlengingu.

„Ég veit ekki hvort við náðum að gera þetta spennandi, þetta var ekkert frábær frammistaða hjá okkur. En ég er gríðarlega ánægður með að vera kominn áfram,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi eftir leik.

Hann viðurkennir að sínir menn hafi misst einbeitinguna í stöðunni 2-0 í seinni hálfleik.

„Já, klárlega. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða, hvort það var eitthvað stress að vilja ekki tapa þessu niður. Mér fannst þeir betri en við á löngum köflum í leiknum,“ sagði Gunnar sem segir að Selfoss-liðið fari langt á því að vera í góðu formi.

„Við höfum klárað leiki vel og erum í góðu formi. Við höfum ekki unnið alla leiki en alltaf átt mjög góð augnablik á síðustu 20 mínútum þeirra,“ sagði þjálfarinn.

Selfoss verður í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit í næstu viku. Gunnar segist helst vilja fá heimaleik.

„Bara eitthvað skemmtilegt. Við höfum sýnt í þessari keppni að við getum unnið stóran klúbb [KR] en tapað fyrir liði sem á að vera minna en við. Það væri voða gaman að fá heimaleik og fá FH eða eitthvað stórlið,“ sagði Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×