Handbolti

Gunnar: Úrslitaleikir framundan

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnar Magnússon þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon þjálfari Hauka. vísir/anton
„Við kláruðum leikinn eins og menn og náðum í þessi tvö stig sem eru í boði og það er það sem skiptir máli,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka eftir þrettán marka sigur á Víkingum í Olís-deildinni í dag.

Haukar leiddu 13-12 í hálfleik eftir að hafa verið komnir með fimm marka forystu í stöðunni 13-8.

„Um leið og við náðum forskoti í fyrri hálfleik þá slökuðum við á. Þeir refsuðu okkur og við vorum fljótir að missa forystuna niður. Fyrir utan þennan tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik þá er ég ánægður með strákana. Menn sáu það í hálfleik að þeir gátu ekki sparað sig eins og þeir ætluðu sér. Við þurftum að gefa í og við kláruðum þetta á fyrstu 10-15 mínútunum í seinni hálfleik,“ bætti Gunnar við.

Haukar eiga í harðri baráttu um heimavallarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar nú þegar þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

„Þetta eru bara allt úrslitaleikir framundan. Við erum komnir á þann tíma ársins þar sem leikirnir skipta miklu máli og við megum ekkert misstíga okkur frekar en aðrir. Við förum í hvern leik sem úrslitaleik og ætlum okkur að ná eins mörgum stigum og við getum. Við þurfum að vera klárir í leikina framundan.“

Tjörvi Þorgeirsson leikstjórnandi Hauka var ekki með í dag en Gunnar sagði hann vera meiddan á hné og að hann hefði spilað meiddur í síðasta leik gegn Selfyssingum.

„Við ákváðum að hvíla hann núna og sjá hvort við náum ekki að koma honum í stand aftur. Við sjáum til hvernig hann verður og skouðum stöðuna aftur á morgun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×