Handbolti

Gunnar: Höldum engum nauðugum hjá félaginu vilji þeir fara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stjörnumenn féllu á mánudagskvöldið.
Stjörnumenn féllu á mánudagskvöldið. vísir/valli
Stjarnan féll úr Olísdeild karla í fyrrakvöld eftir eins marks tap gegn Val, sem um leið tryggði sér deildarmeistaratitilinn. Leikurinn var dæmigerður fyrir Stjörnumenn sem hafa spilað margar jafnar viðureignir í vetur en tapað fleiri slíkum en unnið.

Fimmtán af 26 deildarleikjum Stjörnunnar hafa ráðist á tveggja marka mun eða minna. Af þeim 30 stigum sem voru í boði fyrir Stjörnumenn í þeim fengu Garðbæingar þrettán en alls tapaði liðið fimm sinnum með eins marks mun.

Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar, vildi engu svara um framtíð sína eftir tapið gegn Val en Gunnar Örn Erlingsson, formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar, segir að Skúli sé samningsbundinn í eitt ár til viðbótar.

„Maður vonar bara að leikmenn sjái einhverja von í því að halda áfram og koma svo aftur í efstu deild að ári, sterkari en áður – sérstaklega uppaldir Stjörnumenn. En þetta er allt saman nýtt fyrir okkur og það er ekki byrjað að ræða við leikmenn,“ segir Gunnar en Stjarnan mætir Fram í lokaumferð deildarinnar á fimmtudag.

„Það verða breytingar, svo mikið er víst, en ég vona að flestir verði áfram. Við ætlum þó ekki að halda einhverjum nauðugum hjá félaginu sem ekki vill vera áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×