Sport

Gunnar: Ég ætlaði að klára hann í gólfinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnar er hér að klára bardagann í kvöld. Það sleppur enginn úr svona stöðu gegn Gunnari Nelson.
Gunnar er hér að klára bardagann í kvöld. Það sleppur enginn úr svona stöðu gegn Gunnari Nelson. vísir/getty
Gunnar Nelson var að vonum ljómandi kátur er Vísir heyrði í honum eftir bardagann gegn Albert Tumenov í kvöld.

„Mér líður alveg ljómandi vel. Það er eiginlega ekki annað hægt. Þetta gekk glimrandi vel,“ segir Gunnar glaður.

Skal svo sem engan undra þar sem Gunnar var algjörlega frábær í bardaganum. Hafði mikla yfirburði og vann sannfærandi með uppgjafartaki í annarri lotu.

Sjá einnig: Stórkostleg frammistaða hjá Gunnari gegn Tumenov

„Planið var að mýkja hann aðeins. Vera hraður og hreyfanlegur. Lesa hann og taka hann svo niður. Ég ætlaði svo að klára hann í gólfinu. Ég sá það fyrir mér sem plan A án þess að ég sé mikill planari,“ segir Gunnar en það gekk augljóslega allt upp hjá honum í kvöld.

Gunnar fékk víða hrós á internetinu eftir bardagann og sumir af helstu MMA-sérfræðingum heims sögðu að þetta hefði verið hans besta frammistaða í UFC.

„Ég á eftir að horfa á hann aftur áður en ég get tjáð mig almennilega um það. Þetta var mjög gott. Þetta er hörkugæi sem ég mætti. Á bjarta framtíð fyrir sér og á flugi. Það er yfirleitt þannig eftir bardaga að fargi sé af manni létt. Það hefði verið leiðinlegt að tapa tvisvar í röð. Það er reyndar alltaf leiðinlegt að tapa. Það var frábært fyrir mig að þetta skildi enda svona,“ segir Gunnar kátur.

Nánar er rætt við hann í Fréttablaðinu á morgun.

Gunnar þjarmar hér að Tumenov. Það gerði hann allan bardagann.vísir/getty
MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×