Íslenski boltinn

Gummi Ben: Hugarfarið var heldur betur í lagi hjá okkur í dag

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson.
„Ég er virkilega ánægður með þennan lokaleik okkar í bili í efstu deild, en það er ekki á hverjum degi sem Selfoss skorar fimm mörk í leik," sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfyssinga, eftir 5-2 sigur gegn Grindvíkingum í dag. Leikurinn fór fram á Selfoss í úrhellisrigningu og roki.

„Hugarfarið var heldur betur í lagi hjá okkur í dag og það hefur vantað mikið hjá okkur í sumar. Spilamennska minna manna var til eftirbreytni hér í dag og við uppskáru bara það sem við sáðum," sagði Guðmundur.

„Við vildum enda þetta á góðum nótum og strákarnir gerðu það svo sannarlega. Við áttum þennan sigur virkilega skilið og hefðum getað skorað miklu fleiri mörk," sagði Guðmundur.

Guðmundur Benediktsson var að stýra Selfyssingum í fyrsta sinn í sumar en hann tók við af Gunnlaugi Jónssyni á síðasta ári. Það velta margir fyrir sér hvort Guðmundur verður áfram þjálfari liðsins í 1. deildinni á næsta ári.

„Ég get því miður ekki svarað því. Þetta er ekki alfarið í mínum höndum og við eigum sennilega eftir að ræða þessi mál eftir helgi," sagði Guðmundur Benediktsson mjög svo ánægður eftir leikinn í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×